154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[16:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég og hv. þingmaður sátum saman í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi þar sem við vorum einmitt með sambærilegt frumvarp til umfjöllunar og gáfum okkur heilmikinn tíma í að fara í gegnum það. Ég veit því að hv. þingmaður þekkir frumvarpið vel og það sem hér liggur fyrir. Hv. þingmaður hélt mjög áhugaverða og góða ræðu um löggæslu almennt og um trú hennar og traust til lögreglunnar. En hún fór líka um víðan völl og ég veit að hv. þingmaður áttar sig vel á því að hún var hér að tala um ýmislegt sem er langt fyrir utan frumvarpið. Við erum ekki að tala um einhvers konar þvingunaraðgerðir eins og hleranir eða slíkt hér. En hv. þingmaður sagði að það væri m.a. viðurkennt í dómi Mannréttindadómstólsins að þrátt fyrir mikilvægi persónuverndar kunni í einhverjum tilfellum að vera ástæða til að hafa eftirlit með fólki, jafnvel fólki sem ekki væri grunað um brot.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Tekur hún undir þetta álit? Telur hún réttmætt að í einhverjum tilfellum sé þörf á því að lögregla geti haft eftirlit með einstaklingum?